Um Blómahornið

Blómahornið er lítið blómaverkstæði og blómaskreytingarþjónsta, staðsett í gömlu netagerðinni á Ísafirði og þjónustar Ísafjarðarbæ og nágrenni. Allar blómaskreytingar Blómahornsins eru sem umhverfisvænastar og blómin sérpöntuð fyrir þig eða tínd í íslenskri náttúru. Blómahornið veitir viðbótarþjónustu á við áskriftar-, fyrirtækja-, heimsendingar- og viðburðarþjónustu.

Blómaskreytirinn

Ég heiti Sara og er garðyrkjufræðingur af blómaskreytingarbraut Garðyrkjuskólans á Reykjum.

Ég útskrifaðist vorið 2024 en hef meðal annars unnið hjá Luna Studio, 18 Rauðum Rósum og Blómaval.

Þjónustusvæði

Heimsending er innan Ísafjarðarbæjar, Súðavíkur og Bolungarvíkur.
Þjónusta á önnur svæði á Vestfjörðum er eftir samkomulagi. Einnig er hægt að sækja skreytingar á blómaverkstæðið á Ísafirði.

Af hverju umhverfisvænt?

Ég er uppalin í sveit í Önundarfirði. Náttúran, umhverfið, dýrin og gróðurinn hefur alltaf verið mikill hluti af lífinu mínu.

Þegar ég byrjaði að vinna með afskorin blóm þá hélt ég að þetta væri svo náttúrulegur og fallegur iðnaður. En ég varð eiginlega fyrir smá áfalli yfir öllu plastinu og einnota skreytingarvörum sem notað er dagsdaglega í blómaskreytingum.

Frá því að ég byrjaði í Garðyrkjuskólanum var ég ákveðin í að ef ég skildi vinna við þetta, þá yrði það að vera án plasts og eins umhverfisvænt og hægt væri.

Íslensk framleiðsla

Við búum svo vel að hafa íslenska framleiðsu á afskornum blómum, lúxus sem ekki einu sinni frændur okkar á norðurlöndunum hafa. Framleiðsla á Íslandi er margfalt umhverfisvænni en erlendis. Hér er ræktað með endurnýjanlegri orku og lífrænum vörnum mest megnis. Blómin eru aldrei án vatns, en innflutt blóm eru margar klukkustundir án vatns og það kemur niður á gæðunum, og tölum nú ekki um kolefnissporið við flutninginn.

Þess vegna mun Blómahornið notast aðallega við blóm sem eru ræktuð á Íslandi. Betri gæði og betra fyrir umhverfið. Einnig mun vera boðið upp á blóm sem vaxa villt í íslenskri náttúru. Villt blóm gefa einstakt og náttúrulegt útlit á skreytingar.

Helstu umhverfisvænu skreytingarefnin

Fibrefloral stungumassi

Fiberfloral kemur í staðinn fyrir hefðbundinn Oasis stungumassa (floral foam) sem er úr örplasti og krabbameinsvaldandi efnum. Fibrefloral er náttúrulegt efni, ekkert svo ólíkt steinull, úr eldfjalla basaltbergi. Fibrefloral er ekkert síðri en hefðbundinn oasis þegar kemur að vatnsupptöku blómana og festu. Hentar vel fyrir t.d. útfaraskreytingar eða tækifærisgjafir eins og blómabox, skreytingar þar sem undirlagið er yfirleitt ekki endurnýtt og þarf að geta brotnað niður.

Hænsnanet

Hænsnanet er frábær grunnur fyrir skreytingar og hægt að endurnota endalaust. Hann er galvanhúðaður og því ekki niðurbrjótanlegur, en hentar vel þar sem hægt er að endurnýta undirlagið fyrir næstu verkefni, t.d. í skreytingar fyrir veislur.

Kenzan

Kenzan er hálfgerður nálapúði fyrir blóm, þæginlegur grunnur sem er settur í botn á íláti með vatni. Kenzan er úr japönskum blómaskreytingum og getur verið dýr. Hentar vel til eigu eða leigu, t.d. í skreytingar í veislu.

Bómullarsnæri

Bómullarsnæri kemur í staðinn fyrir blómabast, sterkt plastband sem notað er til að binda saman blómvendi. Gamla góða snærið er alls ekki verra og gefur fallegt og náttúrulegt útlit, ásamt því að vera niðurbrjótanlegt.

Biolit pappabakki

Pappabakki kemur í staðinn fyrir plastbakkana. Smithers-Oasis hefur gert mjög góða niðurbrjótanlega pappabakka og því engin þörf á harðplastbökkum lengur undir stungumassa. Frábært fyrir útfaraskreytingar sérstaklega.

Bambus rómanálar

Bambus rómanálar koma í staðinn fyrir málm rómanálar, hraðara niðurbrot. Einnig frá Smithers-Oasis. Rómanálar eru mikið notaðar í jóla- og páskaskreytingar til dæmis.

Náttúrlegir borðar

Flestir borðar og pakkabönd nú til dags eru úr plasti eða innihalda plast. En það er til mikið úrval af fallegum bómullar, silki og hör borðum sem eru náttúruleg efni.